Skagamenn töpuðu fyrir KR í úrslitum Lengjubikarsins
Meistaraflokkur karla mætti KR í úrslitum Lengjubikarsins á Eimskipsvellinum í kvöld. Um hörkuleik var að ræða og baráttan var í fyrirrúmi hjá báðum liðum allan leikinn.
Bæði lið fengu góð marktækifæri í hálfleiknum sem ekki náðist að nýta. KR var þó á undan að skora en markið gerði Pablo Punyed eftir stoðsendingu frá Óskari Erni Haukssyni á 23. mínútu.
Einungis tveimur mínútum síðar áttu Skagamenn fallegt samspil upp vallarhelming KR sem endaði með því að Gonzalo Zamorano gaf boltann á Bjarka Stein Bjarkason sem skoraði með góðu skoti.
Þrátt fyrir góðar tilraunir af hálfu beggja liða var ekki skorað meira í hálfleiknum og staðan því 1-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Mikil barátta í leiknum og töluvert um leikbrot þannig að ljóst var að hvorugt liðið vildi gefa þumlung eftir.
Eftir tíu mínútna leik í hálfleiknum náði Atli Sigurjónsson góðri stungusendingu inn á Björgvin Stefánsson sem kom boltanum í netið og KR aftur komið marki yfir í leiknum.
Það sem eftir lifði leiks reyndu Skagamenn að sækja og jafna metin. Þrátt fyrir ágæt marktækifæri á köflum þá náðu þeir ekki að nýta færi sín. KR beitti eitruðum skyndisóknum í hálfleiknum sem sköpuðu oft usla í vörn ÍA.
Leiknum lauk þannig með 2-1 sigri KR á ÍA. Skagamenn enduðu þannig í öðru sæti Lengjubikarsins sem gefur ágæt fyrirheit fyrir komandi Íslandsmót, sem hefst eftir tæpar þrjár vikur.






